Íslensk menningarleg hljóðbókasíða

Þar sem sögurnar lifa áfram..
Á annað þúsund íslenskar bækur að velja úr.
1.790 kr. á mánuði
Keisarinn af Portúgal

Keisarinn af Portúgal eftir Selmu Lagerlöf kom fyrst út í íslenskri þýðingu Dr. Björns Bjarnasonar með titlinum Föðurást. Við höfum hins vegar valið að nota titilinn sem höfundur gaf sögunni, en hún heitir á frummálinu Kejsaren av Portugallien. Í tímaritinu Eimreiðinni birtist ritdómur um söguna eftir Magnús Jónsson ritstjóra, þar sem segir m.a.: ,,Hér kemur annað listaverkið á íslenskan bókamarkað. Selma Lagerlöf er farin að verða allkunn íslenskum lesendum og, að vonum, vinsæl. Og víst er um það, að ekki glatar hún þeim vinsældum með þessari sögu. Sagan heitir á frummálinu ,,Kejsarn av Portugalien'', og sakna ég þess nafns nokkuð, en snilldarlega er hitt nafnið valið og miklu nær aðalefni sögunnar. En það er mikið álitamál, hvort rétt er að breyta um nöfn á þýddum skáldsögum. Á ekki skáldið að ráða því eins og öðru, er sögunni við kemur? Þó að íslenska nafnið sé nær efni sögunnar, þá snertir sænska nafnið svo hjartað í hverjum, sem söguna hefir lesið, að við það verður eigi jafnast. Og Selma Lagerlöf skrifar alltaf fyrir hjartað. Ósjálfrátt verður manni að bera saman þessi tvö miklu skáldverk: Innsta þráin [innskot: annað verk sem fjallað var um í sama ritdómi] og Föðurást, og kennir þá svo mikils munar, að erfitt verður um dóminn. Efnið í Föðurást er ekki jafn tröllaukið, en skáldskapurinn er enn þá yndislegri. Enginn rithöfundur kann, að mínu viti, betur tökin á öllum bestu tilfinningum mannshjartans, en Selma Lagerlöf. Það má vera illur maður, sem hún getur ekki vakið einhverja hlýja og fagra kennd hjá. Alltaf leikur einhver bjarmi, einhver dýrð frá upphæðum, yfir sögum hennar, eins og hún væri ekki öll i þessum heimi, meðan hún skrifar. Og hamingjan hjálpi þeim, sem svo er kaldur, að hann ekki getur fundið til með Jóhanni keisara af Portúgal. Þýðingin er snilldar góð. Mér fannst einhvern veginn, er ég sá nafn þýðandans á titilblaðinu, að hann væri að taka niður fyrir sig með því, að eyða tíma sínum og kröftum í það að þýða. En hann hefir leyst verkið svo af hendi, að sæmandi er nafni hans — og því miður verður maður nú að segja minningu hans''. (Eimreiðin, 1. tbl. 1919). Aðalsteinn Júlíus Magnússon les.

Gömul kynni (1. hluti)

Ingunn Jónsdóttir var frá Melum í Hrútafirði. Hún var húsmóðir í Vatnsdal, gift Birni Sigfússyni alþingismanni. Ingunn hóf að skrifa þegar hún var komin yfir sjötugt. Fyrst kom út á prenti Bókin mín árið 1926 og þar næst Minningar árið 1937. Gömul kynni inniheldur báðar þessar bækur, ásamt ýmsu öðru efni. Hér má nefna æviminningar Ingunnar sjálfrar, frásagnir af samferðafólki og atburðum, dýrasögur, dulrænar sögur og ævintýri, svo eitthvað sé nefnt. Í ritdómi sem birtist í Nýja dagblaðinu ritar Sigfús Halldórs um bókina Minningar: ,,enga bók myndi ég heldur vilja úr markaðsflóðinu síðasta (...), hvort sem ég vildi heldur rétta hana að rosknara fólki, til þess að rifja upp gömul kynni af merkum mönnum og atburðum, eða að sæmilega bókfærri æsku, til þess að sýna henni nokkra forkunnar vel gerða og öfgalausa svipdrætti þeirrar héraða- og bændamenningar, sem hélt uppi íslenzku þjóðlífi í þúsund ár.'' Lesturinn er fenginn frá afkomendum Ingunnar og þökkum við á Hlusta.is þeim kærlega fyrir afnotin. Einnig viljum við þakka Þorsteini Birgissyni sérstaklega fyrir að gera okkur lesturinn aðgengilegan. Jónas R. Jónsson les.

Gull

Gull er framhald sögunnar Ofurefli eftir Einar Hjörleifsson Kvaran sem jafnframt var fyrsta Reykjavíkursagan. Hinn óviðafnanlegi stílisti Einar Kvaran heldur áfram að segja frá persónunum sem hann kynnti til sögunnar í Ofurefli og rekur örlög þeirra af mikilli næmni. Aldís Baldvinsdóttir les.

Sjö dauðasyndir: 1. Apollonia Schwarzkopf, glæpasaga frá 18. öld

Rannsóknir Guðbrands Jónssonar (1888-1953) á gömlum íslenskum sakamálum voru í upphafi liður í rannsóknum hans í íslenskri menningarsögu. Í því sambandi leiddi erlendur fræðimaður athygli hans að því að fátt brigði upp jafn glöggum myndum af menningu fyrri tíma og sakamálin og málsskjöl þeirra, og benti honum jafnframt á málaferlasöfn hins franska málflutningsmanns Gayot de Pitaval (1673-1743). Söfn þessi voru nefnd Víðfræg og áhugaverð málaferli (Causes celébres et intéressantes) og komu út í 20 bindum á árunum eftir 1734. Varð frægð þeirra slík að nafn höfundar varð síðar fræðiheiti á sams konar ritum í öðrum löndum, sem enn í dag eru stundum nefnd Pitaval. Til eru meðal annars mjög stór þýsk og ensk Pitaval-söfn og voru þau stundum notuð til að mennta málflutningsmenn. En heiti fyrsta Pitaval-safnsins á svo sannanlega við, því þessi mál eru afar áhugaverð og ekki síður fyrir almenning. Þegar Guðbrandur hafði kynnt sér fjölda ritsafna af þessu tagi fór að flögra að honum hvort ekki væri til nægilegt efni í íslenskan Pitaval. Efnið reyndist yfrið nóg og fór hann upp úr 1925 að rannsaka nokkur slík mál og semja frásagnir af þeim. Voru sumar þeirra birtar áður, m.a. í Blöndu. Hér er um að ræða sönn og oft óhugnanleg íslensk sakamál þar sem lesandinn þarf að setja sig í stöðu rannsakanda og leggja mat á hvað gerðist í raun, út frá því sem sagt var og ritað á tíma viðkomandi máls. Fyrsta frásögnin í bókinni nefnist Apollonia Schwartzkopf, glæpasaga frá 18. öld. Aðalpersónurnar í þessum sorgarleik og sakamáli eru Niels Thyge Fuhrmann amtmaður og justitzráð að nafnbót; jómfrú Apollonia Schwartzkopf; jómfrú Karen Holm, lagskona amtmanns og móðir hennar, maddama Katharina Holm. Jómfrú Schwartzkopf kom til Íslands og til Bessastaða vorið 1722, að því er virðist til að krefjast efnda á hjúskaparheiti því sem Furhmann amtmaður hafði með dómi Hæstaréttar verið dæmdur til efna við hana að viðlögðum miklum árlegum fjárútlátum. Í þrjú ár dvaldi hún á Bessastöðum við erfiðan kost, dularfull og afdrifarík veikindi og engar efndir á hjúskaparheiti amtmanns, en andaðist loks hinn 20. júní 1725. Er aðdraganda og eftirmálum andlátsins lýst í frásögninni. Nú liggja þau öll þrjú saman undir gólfi Bessastaðakirkju, jómfrú Schwartzkopf, Niels Fuhrmann og Karen Holm, og kemur væntanlega betur saman nú en áður. Hitt er þó sagt að jómfrú Swartzkopf sé lítið kyrrlátari en fyrr, því reimt þykir, eða þótti, eftir hana á Bessastöðum til skamms tíma. Logi Guðbrandsson les.

Öldungaráðið: 8. Gunnar Kvaran

Öldungaráðið er syrpa viðtala við elstu kynslóð Íslendinga. Viðmælandi okkar í Öldungaráðinu að þessu sinni er Gunnar Kvaran (f. 1944), en hann er landsþekktur tónlistarmaður, heimspekingur og „húmanisti“ eins og þeir gerast bestir. Hér segir sjentilmennið Gunnar Kvaran sellóleikari af uppvexti sínum og námi heima og erlendis, rekur kynni sín af frægu tónlistarfólki og spjallar um tilgang lífs og tilveru. Það er Jón B. Guðlaugsson sem tekur viðtalið.

Fátækt

Fátækt er kristileg saga eftir Guðrúnu Lárusdóttur. Ung kona snýr aftur heim til Íslands með litla dóttur sína eftir nokkurra ára dvöl í Kaupmannahöfn. Faðerni barnsins er á huldu, enda hefur hann ekkert skipt sér af þeim mæðgum. En þegar hætta steðjar að getur ýmislegt komið í ljós. Guðrún Birna Jakobsdóttir les.

Sjá nýjustu hljóðbækur >