Íslensk menningarleg hljóðbókasíða

Þar sem sögurnar lifa áfram..
Á annað þúsund íslenskar bækur að velja úr.
1.790 kr. á mánuði

Öldungaráðið: 9. Reynir Ingibjartsson

Öldungaráðið er syrpa viðtala við elstu kynslóð Íslendinga. Í þessari syrpu má fræðast um sögu og viðhorf þeirra Íslendinga sem á efri árum líta um öxl og rifja upp aðkomu sína að uppbyggingu þess Íslands sem við þekkjum og upplifum á vorum dögum. Nú bætist við nýr félagi í Öldungaráðið en það er Reynir Ingibjartsson. Hann er ötull áhugamaður um útivist og gönguferðir, fræðimaður, grúskari og rithöfundur. Reynir Ingibjartsson (f. 1941) er Hnappdælingur að uppruna og ekkert er honum óviðkomandi sem sagn- og landafræði svæðisins viðkemur. Hann hefur skrifað sex bækur um gönguleiðir á Vesturlandi og hefur undanfarin ár viðað að sér ómældum heimildum um sagn- og staðfræði Sambands íslenskra samvinnufélaga, risans mikla sem svo miklum straumhvörfum olli í viðskiptasögu Íslands á tuttugustu öld en hvarf svo sem dögg fyrir sólu á skömmum tíma. Það er Jón B. Guðlaugsson sem tekur viðtalið.

Kitty Hawk-kletturinn

Skáldsagan Kitty Hawk-kletturinn birtist fyrst sem sérprentun í 22. og 23. árgangi Þjóðviljans árið 1909. Þar er hún sögð eftir Fr. Zimmermann. Í Gegni segir að hún sé eftir Friedrich Gottlieb Zimmermann (1782-1835) en við gátum þó ekki fundið nein merki um það, þannig að við látum það bara liggja á milli hluta. Hvað um það þá er sagan rómantísk spennusaga af gamla skólanum og ættu aðdáendur slíkra sagna að hafa gaman að henni. Þess ber þó að geta að tungumálið er á stöku stað nokkuð fornt en þó ekki að það skemmi fyrir; gefur sögunni bara meira gildi. Ingólfur B. Kristjánsson les.

Riddarar silfurskjaldarreglunnar

Riddarar silfurskjaldarreglunnar er barnasaga eftir ókunnan höfund.  Sigurður Arent Jónsson les.

Hinn heilagi Vincentius

Hinn heilagi Vincentius er gamansöm saga eftir ókunnan höfund. Hér segir frá presti nokkrum sem uppgötvar að dýrlingslíkneski þorpsins hefur legið undir skemmdum, svo hann tekur til sinna ráða. Ingólfur B. Kristjánsson les.

Þúsund og ein nótt: 11. bók

Þúsund og ein nótt er safn af sögum frá ýmsum höfundum og úr ýmsum ritum. Sögurnar eiga rætur að rekja til Arabíu, Indlands, Persíu, Egyptalands og Sýrlands meðal annars, allt frá fornöld til miðalda. Talið er að safnið sjálft megi rekja til 8. eða 9. aldar. Safnið er til í mörgum útgáfum en allar eiga þær það sameiginlegt að innihalda rammafrásögn um konunginn Sarjar og konu hans Sjerasade. Þekktustu sögurnar úr sagnasafninu eru sögurnar af Alí Baba, Aladdín og Sindbað sæfara. Sögurnar eru, eins og Íslendingasögurnar og kviður Hómers, hluti af sagnaarfi heimsins og ættu að vera hverjum manni hugleiknar og svo eru þær líka afar skemmtilegar. Í þessari elleftu bók eru nokkrar af kunnustu sögunum i safninu: Sagan af Alý Baba og hinum fjörutíu ræningjum, Sagan af Alý Kodja, Töfrahesturinn og fleiri. Eru það allt stórskemmtilegar og áhugaverðar sögur. Ingólfur B. Kristjánsson les.

Sjá nýjustu hljóðbækur >