Íslensk menningarleg hljóðbókasíða

Þar sem sögurnar lifa áfram..
Á annað þúsund íslenskar bækur að velja úr.
1.790 kr. á mánuði

Öldungaráðið: 8. Gunnar Kvaran

Öldungaráðið er syrpa viðtala við elstu kynslóð Íslendinga. Viðmælandi okkar í Öldungaráðinu að þessu sinni er Gunnar Kvaran (f. 1944), en hann er landsþekktur tónlistarmaður, heimspekingur og „húmanisti“ eins og þeir gerast bestir. Hér segir sjentilmennið Gunnar Kvaran sellóleikari af uppvexti sínum og námi heima og erlendis, rekur kynni sín af frægu tónlistarfólki og spjallar um tilgang lífs og tilveru. Það er Jón B. Guðlaugsson sem tekur viðtalið.

Maríukirkjan í París

Maríukirkjan í París (Notre Dame de Paris) er betur þekkt undir titlinum Hringjarinn í Notre Dame. Sagan kom fyrst út árið 1831. Victor Hugo (1802-1885) er einn fremsti rithöfundur, skáld og leikskáld Frakka. Nafn hans er órjúfanlega tengt rómantísku stefnunni. Guðmundur Ingi Kristjánsson les.

Jón halti

Jónas Jónasson (1850-1918) sem kenndur var við Hrafnagil, þar sem hann bjó lengstan hluta ævi sinnar, var afkastamikill fræðimaður og rithöfundur, en best er hann sennilega þekktur fyrir ritið Íslenskir þjóðhættir sem kom fyrst út árið 1934, sextán árum eftir dauða hans. Þá starfaði hann bæði sem prestur í Grundarþingi og kennari á Akureyri. Rithöfundarferill Jónasar hófst með því að hann birti allmargar smásögur í blöðum og tímaritum, en árið 1892 kom svo út fyrsta heila skáldsagan, Randíður á Hvassafelli. Sögur Jónasar eru skrifaðar í raunsæisstíl, og hann gerir lítið í því að skreyta orðfærið með hástemmdum lýsingum. Hefur hann enda stundum verið gagnrýndur fyrir að sagnfræðin beri skáldskapinn ofurliði í sögum hans, og má það kannski til sanns vegar færa ef litið er til fyrstu skáldsagna hans, en með sögunni um Jón halta, sem birtist fyrst í Nýjum kvöldvökum árið 1913, kveður við svolítið nýjan tón. Þar fer saman næmur skilningur á efninu og skemmtileg frásagnargleði. Í Íslenskri bókmenntasögu frá 1996 segir Matthías Viðar Sæmundsson um söguna: ,,Í Jóni halta er hefð raunsæisskáldsögunnar fylgt í hvívetna, nema hvað niðurlagið er af öðrum toga því þar er trúarlegu ljósi brugðið á verkið allt í anda spíritisma." (Bls. 816.) Guðrún Helga Jónsdóttir les.

Kínverski páfagaukurinn

Það er okkur mikill ánægja að bjóða upp á sögu sem hvergi er hægt að nálgast á íslensku annars staðar en hér. Það er sakamálasagan Kínverski páfagaukurinn eftir snillinginn Earl Derr Biggers. Sagan var önnur í röðinni af mörgum sögum sem hann skrifaði um kínverska rannsóknarlögreglumanninn Charlie Chan en þær nutu gríðarlegra vinsælda á sínum tíma og voru bæði gerðar kvikmyndir og sjónvarpsþættir eftir þeim. Kom sagan fyrst út árið 1926. Hér er hún í þýðingu Aðalsteins Magnússonar. Til marks um hvað hún var vinsæl var þessi umrædda saga kvikmynduð tvisvar, fyrst árið 1927 undir sama nafni og síðan árið 1934 undir nafninu Hugrekki Charlie Chans. Ingólfur B. Kristjánsson les.

Keisarinn af Portúgal

Keisarinn af Portúgal eftir Selmu Lagerlöf kom fyrst út í íslenskri þýðingu Dr. Björns Bjarnasonar með titlinum Föðurást. Við höfum hins vegar valið að nota titilinn sem höfundur gaf sögunni, en hún heitir á frummálinu Kejsaren av Portugallien. Í tímaritinu Eimreiðinni birtist ritdómur um söguna eftir Magnús Jónsson ritstjóra, þar sem segir m.a.: ,,Hér kemur annað listaverkið á íslenskan bókamarkað. Selma Lagerlöf er farin að verða allkunn íslenskum lesendum og, að vonum, vinsæl. Og víst er um það, að ekki glatar hún þeim vinsældum með þessari sögu. Sagan heitir á frummálinu ,,Kejsarn av Portugalien'', og sakna ég þess nafns nokkuð, en snilldarlega er hitt nafnið valið og miklu nær aðalefni sögunnar. En það er mikið álitamál, hvort rétt er að breyta um nöfn á þýddum skáldsögum. Á ekki skáldið að ráða því eins og öðru, er sögunni við kemur? Þó að íslenska nafnið sé nær efni sögunnar, þá snertir sænska nafnið svo hjartað í hverjum, sem söguna hefir lesið, að við það verður eigi jafnast. Og Selma Lagerlöf skrifar alltaf fyrir hjartað. Ósjálfrátt verður manni að bera saman þessi tvö miklu skáldverk: Innsta þráin [innskot: annað verk sem fjallað var um í sama ritdómi] og Föðurást, og kennir þá svo mikils munar, að erfitt verður um dóminn. Efnið í Föðurást er ekki jafn tröllaukið, en skáldskapurinn er enn þá yndislegri. Enginn rithöfundur kann, að mínu viti, betur tökin á öllum bestu tilfinningum mannshjartans, en Selma Lagerlöf. Það má vera illur maður, sem hún getur ekki vakið einhverja hlýja og fagra kennd hjá. Alltaf leikur einhver bjarmi, einhver dýrð frá upphæðum, yfir sögum hennar, eins og hún væri ekki öll i þessum heimi, meðan hún skrifar. Og hamingjan hjálpi þeim, sem svo er kaldur, að hann ekki getur fundið til með Jóhanni keisara af Portúgal. Þýðingin er snilldar góð. Mér fannst einhvern veginn, er ég sá nafn þýðandans á titilblaðinu, að hann væri að taka niður fyrir sig með því, að eyða tíma sínum og kröftum í það að þýða. En hann hefir leyst verkið svo af hendi, að sæmandi er nafni hans — og því miður verður maður nú að segja minningu hans''. (Eimreiðin, 1. tbl. 1919). Aðalsteinn Júlíus Magnússon les.

Sjá nýjustu hljóðbækur >