Íslensk menningarleg hljóðbókasíða

Þar sem sögurnar lifa áfram..
Á annað þúsund íslenskar bækur að velja úr.
1.790 kr. á mánuði

Bergnuminn

Bergnuminn er mögnuð skáldsaga úr íslensku þjóðlífi sem tekur fyrir spilafíkn. Söguþráðurinn er æsilegur og heldur lesandanum föngnum, en ef skyggnst er undir yfirborðið tekst höfundurinn á við varnarleysi mannsins gagnvart sterkum öflum tilfinninganna, dulmögn, ást, von og trú. Sagan var fyrsta skáldsaga Eysteins og kom út árið 1989. Höfundur les.

Afrek Sherlock Holmes

Sherlock Holmes þarf vart að kynna fyrir hlustendum. Hér er safn smásagna um þennan þekktasta spæjara bókmenntanna og Watson félaga hans, eftir skoska rithöfundinn og lækninn Arthur Conan Doyle (1859-1930). Sögurnar í þessu safni heita: Veðreiða-Blesi, Gula andlitið, Ævintýri bankaþjónsins, Gloria Scott, Helgisiðabók Musgrave-ættarinnar, Morð ökumannsins, Krypplingurinn, Ævintýri taugalæknisins, Gríski túlkurinn, Verðmæta skjalið og Lokaþáttur. Hallgrímur Indriðason les.

Um stríð

Stríð hafa því miður fylgt mannkyninu nánast frá upphafi og ógnir þeirra og hræðilegar afleiðingar haft gríðarleg áhrif á fólk og gera það enn. Fyrir stuttu rákumst við á Hlusta á áhugaverða grein sem birtist í tímaritinu Syrpu í febrúar árið 1920 og bar yfirskriftina Um stríð. Þá var liðið rúmlega ár frá því að hinum mikla hildarleik, fyrri heimsstyrjöldinni, lauk og má kannski segja að nægjanlegur tími sé liðinn til að menn geti litið nokkuð hlutlægt á málin en þó svo stutt að skelfingin sé enn í fersku minni. Hvað sem því líður, þá fannst okkur greinin afar áhugaverð og merkilegt hvað hún er í raun tímalaus, þ.e.a.s. að margt í henni getur alveg talað inn í okkar tíma. Höfundur greinarinnar er Jakob Gunnlögsson en því miður vitum við ekkert meira um hann. En greinin talar alveg fyllilega sínu máli. Ingólfur B. Kristjánsson les.

Gull

Gull er framhald sögunnar Ofurefli eftir Einar Hjörleifsson Kvaran sem jafnframt var fyrsta Reykjavíkursagan. Hinn óviðafnanlegi stílisti Einar Kvaran heldur áfram að segja frá persónunum sem hann kynnti til sögunnar í Ofurefli og rekur örlög þeirra af mikilli næmni. Aldís Baldvinsdóttir les.

Borgir

Sagan Borgir eftir Jón Trausta segir frá séra Gísla Jónssyni, nýráðnum aðstoðarpresti í Grundarfirði. Honum lyndir ekki við yfirmann sinn, en er þó trúlofaður dóttur hans, og nú eru farnar að renna á hann tvær grímur um stöðu mála. Ekki nóg með það, heldur virðist hann ekki ætla að fá mörg tækifæri til að lesa vandlega samdar ræður sínar um réttlæti Faríseanna og annað slíkt, því söfnuðurinn sést ekki í kirkju nema við brúðkaup og jarðarfarir. Jón Trausti, eða Guðmundur Magnússon eins og hann hét réttu nafni, fæddist árið 1873. Hann átti stóran sess í hjörtum sinnar samtíðar og meðal þekktustu verka hans má nefna sögurnar um Höllu og heiðarbýlið og Önnu frá Stóruborg. Guðmundur Ingi Kristjánsson les.

Sjá nýjustu hljóðbækur >