Íslensk menningarleg hljóðbókasíða

Þar sem sögurnar lifa áfram..
Á annað þúsund íslenskar bækur að velja úr.
1.790 kr. á mánuði
Austantórur: Endurminningar Jóns Pálssonar (2. bindi)

Skrif Jóns Pálssonar komu út í þremur bindum við ævilok hans undir nafninu Austantórur I–III. Eru þau fróðlegur lestur og hlustun okkur 21. aldar mönnum, eða eins og Jón sjálfur orðaði það: „Öllum þeim er línur þessar lesa hlýtur að verða það ljóst, hversu mikið menn urðu oft og einatt að leggja á sig og að sér í baráttunni fyrir lífinu. Mættu línur þessar verða til þess að kenna ungu kynslóðinni að meta að verðleikum baráttuna sem feður þeirra og mæður urðu að heyja fyrir velferð hinna ungu karla og kvenna og taka framfaraviðleitni þeirra sér til eftirbreytni. Stríð þeirra og strit var fyrir þau og þeim er að þakka að æskan fær nú að lifa við betri kjör en áður þekktust.“ Jón Pálsson (1865–1946) var fjölhæfur maður og fjölgáfaður er lagði gjörva hönd á margt um daga sína. Einna lengst mun hans minnst fyrir frumkvöðlastarf sitt í sunnlensku tónlistarlífi – einkum orgelleik og kórastarfi – en ekki hvað síst fyrir elju hans í söfnun og hljóðritun íslenskra þjóðlaga, löngu áður en öðrum hugkvæmdist varðveisla af því tagi. Þannig mun sálmalagið fagra, „Víst ertu Jesú kóngur klár,“ hafa varðveist fyrir hans tilverknað, útsett af bróðursyni hans, Páli Ísólfssyni tónlistarmanni. Jón var borinn og barnfæddur á Stokkseyri og kynntist ungur hinum hörðu lífskjörum bænda og sjósóknara við suðurströnd landsins á 19. öld, enda deildi hann kjörum við Stokkseyringa allt til ársins 1903 er hann fluttist til Reykjavíkur og gerðist m.a. fyrsti orgelleikari Fríkirkjunnar. Af einstakri natni, skarpskyggni og elju skráði hann fjölmargar þjóðlífsmyndir úr heimasveitum sínum er veita nútímamönnum glögga innsýn í harðræði og fátækt fyrri tíðar kynslóða – en einnig útsjónarsemi þeirra, dugnað og þekkingu á stóru sem smáu er gjörði þeim kleift að takast á við náttúruöflin og komast af, kynslóð fram af kynslóð. Jón B. Guðlaugsson les.

Meðan húsið svaf

Skáldsagan Meðan húsið svaf eftir Guðmund Kamban kom fyrst út á dönsku árið 1925 undir nafninu Det Sovende hus. Mun sagan upphaflega hafa verið hugsuð sem kvikmyndahandrit og var kvikmynduð í leikstjórn hans sjálfs árið 1926. Árið 1948 kom sagan fyrst út á Íslandi undir nafninu Meðan húsið svaf í frábærri þýðingu Katrínar Ólafsdóttur. Í einfaldri útfærslu má segja að sagan segi frá ungum hjónum, þeirra lífi, ástum og örlögum. En sagan er miklu flóknari en það og tekur á sérstæðan og afar næman hátt á breyskleika mannanna í varsömum heimi. Guðmundur nær í sögunni að tala inn í sinn samtíma en hann nær einnig að byggja upp stemningu sem hæfir viðfangsefninu sem er sígilt og ljær sögunni þannig líf langt út fyrir sína samtíð. Að mati undirritaðs er þetta besta og áhugaverðasta saga Kambans. Ingólfur B. Kristjánsson les.

Trix

Eufemia von Adlersfeld-Ballestrem (1854-1941) var þýsk skáldkona sem skrifaði nokkrar skáldsögur fyrir og eftir aldamótin 1900 sem nutu gríðarlegra vinsælda víða um lönd. Ein þeirra var Trix sem kom fyrst út á íslensku árið 1929 í tímaritinu Austra. Þessi hádramatíska, spennandi og skemmtilega skáldsaga segir frá hinni lífsglöðu stúlku Trix sem, eftir að hafa alist upp við mikla fátækt, erfir skyndilega stórauðugan frænda sinn og sest í kjölfarið að á landareign hans. Og jafn skyndilega vilja nú margir komast í kynni við hana og stýra því hvernig hún lifir sínu lífi. Nú er að sjá hvernig fer fyrir henni. Tvær aðrar sögur eftir Adlersfeld hafa verið þýddar á íslensku, en það eru sögurnar Hvítu dúfurnar (Weisse Tauben) 1919 og Spaðahöllin (Ca´spada) 1923. Urðu þær einnig mjög vinsælar á sínum tíma. Vala Hafstað les.

Piltur og stúlka

Löngum hefur verið talað um Pilt og stúlku eftir Jón Thoroddsen sem fyrstu íslensku nútímaskáldsöguna. Sagan hefur lengi lifað með þjóðinni og mun eflaust lifa lengi enn. Guðrún Birna Jakobsdóttir les.

Sjö dauðasyndir: 2. Þórdísarmálið, sakamál frá 17. öld

Rannsóknir Guðbrands Jónssonar (1888-1953) á gömlum íslenskum sakamálum voru í upphafi liður í rannsóknum hans í íslenskri menningarsögu. Í því sambandi leiddi erlendur fræðimaður athygli hans að því að fátt brigði upp jafn glöggum myndum af menningu fyrri tíma og sakamálin og málsskjöl þeirra, og benti honum jafnframt á málaferlasöfn hins franska málflutningsmanns Gayot de Pitaval (1673-1743). Söfn þessi voru nefnd Víðfræg og áhugaverð málaferli (Causes celébres et intéressantes) og komu út í 20 bindum á árunum eftir 1734. Varð frægð þeirra slík að nafn höfundar varð síðar fræðiheiti á sams konar ritum í öðrum löndum, sem enn í dag eru stundum nefnd Pitaval. Til eru meðal annars mjög stór þýsk og ensk Pitaval-söfn og voru þau stundum notuð til að mennta málflutningsmenn. En heiti fyrsta Pitaval-safnsins á svo sannanlega við, því þessi mál eru afar áhugaverð og ekki síður fyrir almenning. Þegar Guðbrandur hafði kynnt sér fjölda ritsafna af þessu tagi fór að flögra að honum hvort ekki væri til nægilegt efni í íslenskan Pitaval. Efnið reyndist yfrið nóg og fór hann upp úr 1925 að rannsaka nokkur slík mál og semja frásagnir af þeim. Voru sumar þeirra birtar áður, m.a. í Blöndu. Hér er um að ræða sönn og oft óhugnanleg íslensk sakamál þar sem lesandinn þarf að setja sig í stöðu rannsakanda og leggja mat á hvað gerðist í raun, út frá því sem sagt var og ritað á tíma viðkomandi máls. Önnur frásögnin í bókinni nefnist Þórdísarmálið, sakamál frá 17. öld. Þórdísarmálið fjallar um vandræðagang yfirvaldsins í héraði og á Alþingi þegar upp kemur mál er varðar brot á Stóradómi. Stúlkan Þórdís vill sverja af sér að hún leggi lag sitt við karlmenn. Annað kemur í ljós og vilja innlend yfirvöld fara vægt í sakir, en fulltrúi konungs af hörku, svo fleira er í spilunum en bara sök Þórdísar. Sagan lýsir líka trú og viðhorfi almennings á þeirri tíð er sagan gerist og er því spegill á mannlífið á Íslandi. Logi Guðbrandsson les.

Kímnisögur

Kímnisögur eru flokkur þjóðsagna í safni Jóns Árnasonar. Hér má meðal annars finna sögur eins og Bakkabræður, „Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður“ og fjölmargar fleiri. Guðrún Birna Jakobsdóttir les.

Sjá nýjustu hljóðbækur >
NOTHING FOUND!