Í verum (2. bindi)
Theódór Friðriksson (1876-1948) rithöfundur var eitt af undrabörnum íslenskrar menningarsögu. Sjálfsævisaga hans Í verum kom út í tveim bindum árið 1941 og varð þegar í stað þekkt um allt land, lesin af ungum og gömlum, og dáð af öllum sem kunnu að meta vel sagða sögu á auðugu og hressilegu máli. Er þetta einstæð saga og klassísk heimild um lífskjör alþýðumanna í sjávarplássum og á afskekktum stöðum eins og norður í Fjörðum á seinni hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar. Sagan skiptist í sjö meginþætti og ákváðum við á Hlusta.is að gefa hana út í fjórum bindum í stað tveggja. Í þessu öðru bindi segir Theódór okkur frá fyrstu búskaparárum sínum, þar sem hungrið og fátæktin beið bakvið næsta hól og lífið var sífellt strit frá morgni til kvölds. Við fræðumst líka um sjómennsku fyrri ára og hákarlalegur. Í þessu bindi flytur litla fjölskyldan til Skagafjarðar án þess að eiga neitt öruggt skjól þar. Loks segir hann frá því er hann leggur fyrstu bók sína inn hjá Oddi Björnssyni prentara, smásagnasafnið Utan frá sjó. Ingólfur B. Kristjánsson les.