Öldungaráðið: 1. Valdimar Örnólfsson
Öldungaráðið er syrpa viðtala við elstu kynslóð Íslendinga. „Viskan fylgir gráum hárum“ og „oft er gott sem gamlir kveða“. Sú kynslóð Íslendinga sem nú er komin á efri ár hefur marga fjöruna sopið og lifað mestu breytingatíma sem orðið hafa á högum lands og þjóðar í aldanna rás; heimskreppu, heimsstyrjöld, lýðveldisstofnun, kalt stríð, uppbyggingu og uppgangsár samfélagsins, verðbólgutíma og pólitísk átök – að ógleymdu bankahruni og endurskipulagningu fjármálakerfis og þjóðfélagsins alls. Hver er saga og viðhorf þess fólks sem lifað hefur tímana tvenna og þrenna? Í þessari syrpu má fræðast um sögu og viðhorf þeirra Íslendinga sem á efri árum líta um öxl og rifja upp aðkomu sína að uppbyggingu þess Íslands sem við þekkjum og upplifum á vorum dögum. Við ýtum Öldungaráðinu úr vör með viðtali við hinn merka mann Valdimar Örnólfsson, en hann fæddist 9. febrúar 1932. „Mens sana in corpore sano“. Valdimar er landsþekktur skíða- og íþróttakappi sem hvað mest og best hefur liðkað limi landsmanna og haldið þeim að heilsubót og heilnæmu líferni. Hér stiklar hann á stóru í æviferli sínum og starfi og miðlar sem fyrr af lífsgleði sinni og fjöri. Það er Jón B. Guðlaugsson sem tekur viðtalið.