Sjálfsvirðing
Það er svo að sumar smásögur búa yfir miklum töfrum og hafa meira innihald en margar lengri sögur. Það á við um söguna Sjálfsvirðing eftir kanadíska rithöfundinn Alan Sullivan. Sagan gerist á Viktoríutímanum þegar stéttaskipting var helsta skilgreining bresks samfélags. Við kynnumst nokkrum breskum iðjuleysingjum af góðum ættum sem allir eiga það sameiginlegt að búa við góð efni. En svo gerist það að einn þeirra verður fyrir því að missa auð sinn og stendur uppi slyppur og snauður. Sagan er mjög skemmtileg og á erindi inn í hvaða tíma sem er. Á ensku heitir sagan The Shame of It og kom fyrst út 1. maí árið 1914. Var hún þýdd á íslensku af einhverjum F. A. A. og birtist í vestur-íslenska tímaritinu Syrpu ári síðar (1915). Höfundurinn Alan Sullivan (1868-1947) var eins og áður sagði kanadískur, fæddur í Montreal. Gerðist hann verkfræðingur og starfaði við það lengstum og ferðaðist víða vegna þess starfa. Samhliða því skrifaði hann ljóð, smásögur og blaðagreinar, auk þess sem hann skrifaði eina sögulega skáldsögu, The Great Divide, sem náði töluverðum vinsældum, þar sem sögusviðið er lagning hinnar miklu kanadísku járnbrautar frá austurströndinni og að Kyrrahafi. Ingólfur B. Kristjánsson les.