Öldungaráðið: 13. Sonja Zorn
Öldungaráðið er syrpa viðtala við elstu kynslóð Íslendinga. Þrettándi meðlimur Öldungaráðsins okkar hér á Hlusta.is er sagnfræðingurinn Sonja Zorn, sem fædd er 1936. Hún er ein úr hópi margra þýskra stúlkna sem leið lögðu til Íslands í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Var hún þá 18 ára. Hún kom til Íslands árið 1954 og ætlaði sér að dvelja hér eitt ár eða tvö og safna sér fyrir ferð til Ástralíu. En margt fer öðruvísi en ætlað er og árin urðu tuttugu og börnin fjögur áður en Sonja kvaddi Ísland í skjóli nætur í hrimköldum desember ársins 1974. Þá var hjónaband farið í vaskinn og aðstæður slíkar að henni og börnunum var ekki lengur vært. En alltaf er Ísland „heima“ fyrir Sonju og hingað hefur leiðin legið nokkrum sinnum síðar í heimsóknir til gamalla vina og kunningja. Einn júlídag ársins 2018, er Sonja var hér á ferð, settist hún niður og rakti minningar sínar úr uppvexti stríðsáranna í Sleswig-Holstein og tuttugu árum á Íslandinu trjálausa. Það er Jón B. Guðlaugsson sem tekur viðtalið.