Laxdæla saga
Laxdæla saga hefur allt til að bera sem góða sögu skal prýða, svo sem ástir, stór örlög og yfirnáttúrulega atburði í litríkum búningi, en meginefni sögunnar er harmsaga þeirra Guðrúnar Ósvífursdóttur og Kjartans Ólafssonar. Sagan segir frá ætt norska héraðshöfðingjans Ketils flatnefs, sem ásamt fjölskyldu sinni hrekst burt úr heimalandi sínu undan ofríki Haralds hárfagra og eftir nokkra hrakninga enda öll börn hans á Íslandi og nema þar land. Ekki er vitað um höfund Laxdælu, en því hefur stundum verið haldið fram að hún sé skrifuð af konu, sem telst nokkuð óvenjulegt. Ástæðan er helst sú að konur eru miklir áhrifavaldar í sögunni og hafa þar stór hlutverk. Má þar nefna Guðrúnu Ósvífursdóttur, Unni djúpúðgu og írsku konungsdótturina og ambáttina Melkorku. Hér er einnig að finna eina af áhugaverðari gátum Íslendingasagnanna, en það er túlkun orða Guðrúnar Ósvífursdóttur er Bolli sonur hennar spyr hana hverjum bænda sinna og ástmanna hún hafi unnað mest, en Guðrún svarar með þeim fleygu orðum: „Þeim var ég verst er ég unni mest“. Ingólfur B. Kristjánsson les.