Færeyinga saga
Færeyinga saga segir einkum frá þeim Sigmundi Brestissyni og Þrándi í Götu sem áttu í töluverðum deilum um yfirráð í eyjunum í kringum árið 1000. Verður að segjast að Þrándur í Götu sé einn af eftirminnilegustu skúrkum íslenskra fornsagna á meðan Sigmundur sver sig í ætt hetja á borð við Gunnar á Hlíðarenda og sviplíkra manna. Sagan segir öðrum þræði frá því þegar Færeyingar tóku kristni en eins og hjá okkur Íslendingum gerðist það með lágmarks átökum. Er sagan mjög skemmtileg og um leið nokkuð ólík þeim helstu Íslendingasögum sem við þekkjum. Sagan mun vera rituð skömmu eftir 1200 og er höfundur ókunnur. Upprunalega handritið er mönnum glatað en hlutar úr sögunni eru skráðir í önnur rit eins og Ólafs sögu Tryggvasonar og Flateyjarbók. Ingólfur B. Kristjánsson les.