Ást og auður
Ást og auður er stutt örlagasaga í 11 köflum, oft átakanleg. Segir þar frá stúlkunni Sigríði, bóndanum Gísla sem ann henni hugástum og kaupmanninum Þórarni sem giftist henni. Sagan minnir stundum á Kærleiksheimilið eftir Gest Pálsson. Hún telst þó ekki til raunsæis heldur nýrómantíkur, en skilin eru ekki mjög skörp. Það sem kannski helst gerir söguna jafn góða og skemmtilega aflestrar og raun ber vitni er einlægnin og ákefðin sem býr að baki. Það er eins og maður finni samkennd höfundar með sögupersónunum og það að hér er skrifað af sárri reynslu, þess sem átt hefur en misst. Þá er ljóðrænn textinn seiðandi og myndmálið oft á tíðum forvitnilegt. Ingólfur B. Kristjánsson les.