Spunnið um Stalín - Helgispjall
Bókin Spunnið um Stalín - Helgispjall eftir Matthías Jóhannessen skiptist í þrjá megin kafla. Sá fyrsti nefnist „Skáldskapur og veruleiki“ og fjallar, eins og nafnið ber með sér, fyrst og fremst um skáldskap. Kemur Matthías þar víða við og nefnir marga til sögunnar. Annar kafli ber sama titil og bókin: „Spunnið um Stalín.“ Hann er, eins og nafnið gefur til kynna, spuni um Jósef Stalín, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, byggður á raunverulegum atburðum. Fjallað er um nánustu samstarfsmenn og ættingja Stalíns og ýmsa atburði í lífi þeirra. Þá fjallar Matthías þarna einnig um för Halldórs Kiljans Laxness til Sovétríkjanna á sínum tíma. Síðasti kaflinn nefnist „Ferðin sjálf er fyrirheitið,“ en þar fjallar Matthías um Dante Alighieri og verk hans Hinn guðdómlega gleðileik, sem er eitt merkasta bókmenntaverk sögunnar. Bókin kom fyrst út hjá Árvakri árið 1995, í 200 tölusettum eintökum. Kristján Róbert Kristjánsson les.