Sannar kynjasögur
Sannar kynjasögur eftir Cheiro kom fyrst út á íslensku árið 1947 í þýðingu Kristmunds Þorleifssonar. Naut bókin gríðarlegra vinsælda enda bæði vel skrifuð og segir frá ótrúlegum og spennandi atburðum. Cheiro (1866-1936) var dulnefni á William John Warner sem fæddist á Írlandi árið 1866. Hann tók sér sem ungur maður nafnið Louis Hamon greifi og ferðaðist til Indlands þar sem hann kynnti sér dulspeki og nam hana af þarlendum fræðimönnum (gúrúum). Eftir nokkura ára nám á Indlandi flutti hann til Lundúna og tók til við að spá fyrir fólki. Þaðan flutti hann svo til Bandaríkjanna og hélt þeirri iðju áfram. Þótti hann svo slyngur spámaður að hann varð snemma mjög eftirsóttur og segir sagan að margt frægt fólk hafi fengið hann til að spá fyrir sér. Má þar nefna fólk eins og Mark Twain, Söruh Bernhardt, Mata Hari, Oscar Wilde, Thomas Edison, Eðvarð VII. Englandskonung og William Gladstone, svo einhverjir séu nefndir. Lét hann alla sem hann spáði fyrir skrifa í sérstaka gestabók og segja hvað þeir upplifðu þannig að það eru til skjalfestar upplýsingar um heimsóknirnar. Þá spáði hann fyrir um alls kyns atburði sem áttu eftir að gerast, s.s. örlög Nikulásar Rússakeisara, árásina á Umberto Ítalíukonung og banatilræði Shahinn í Persíu er hann var staddur í París. Var morði afstýrt vegna aðvörunar hans. Jón B. Guðlaugsson les.