Jóns þáttur biskups Halldórssonar
Jón Halldórsson var biskup í Skálholti á 14. öld. Hann er gjarnan talinn hafa verið norskur en vitað er að móðir hans hét Freygerður en það nafn er einungis þekkt úr íslenskum heimildum. Hann ólst upp í klaustri dóminíkana í Björgvin en stundaði nám síðar bæði í París og Bologna. Hann þótti tala latínu eins og móðurmál sitt. Hann kom á ýmsum mikilvægum umbótum í kirkjurétti á Íslandi en var einkum minnst sem predikara og sagnamanns. Til er safn af sögum sem hafðar eru eftir honum sem margar hverjar sverja sig í ætt við skemmtisögur frá Suður-Evrópu eins og finna má í verkum Francesco Petrarca og Giovanni Boccaccio. Veturinn 1338-1339 var hann í Björgvin og dvaldi í klaustrinu þar sem hann hafði alist upp. Þar veiktist hann og dó á kyndilmessu 1339. Hann þótti hafa verið einn hinn röggsamlegasti þeirra útlendu biskupa sem hér voru. Þátturinn segir einkum frá námsárum hans í París og Bologna. Ingólfur B. Kristjánsson les.