Hernámsáraskáld
Hernámsáraskáld er önnur minningabók Jóns Óskars af sex og tekur upp þráðinn þar sem þeirri fyrstu, Fundnir snillingar, sleppir. Undirtitill bókanna er: Minnisatriði um líf skálda og listamanna í Reykjavík. Hernámsáraskáld nær yfir um þriggja ára tímabil, þ.e. hún hefst árið 1942 og lýkur 1945. Er þetta tími mikilla atburða í heimssögunni sem teygðu sig alla leið hingað norður og þrátt fyrir að þeir atburðir og átök séu meira í bakgrunni, varpa þeir ákveðnu ljósi á atburðarásina. Á slíkum tímum leitar ungt fólk að leiðum til að bæta heiminn og finna sinn flöt í tilverunni og það átti svo sannarlega við hér. Þá fáum við meira að heyra um leit Jóns og félaga hans að sannleikanum og baráttu þeirra við að fóta sig í heimi bókmennta og lista. Og eins og í Fundnir snillingar eru hugleiðingar Jóns Óskars um verk sem hann les á þessum árum og höfunda sem verða á vegi hans mjög áhugaverðar. Eru þær lausar við alla tilgerð og útúrsnúninga sem eiga til að einkenna slíkar hugleiðingar. Í raun má segja að bókin sé í aðra röndina lestrar- og bókmenntasaga ungs manns á umbrotatímum. Bókin kom út hjá bókaforlaginu Iðunni árið 1970. Ingólfur B. Kristjánsson les.