Dalafólk: 4. bók
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (1881-1946) sem skrifaði undir dulnefninu Hulda var stórmerk skáldkona ættuð úr Þingeyjarsýslu. Var hún einungis tvítug þegar hún vakti athygli fyrir ljóð sín, sem áttu sterkar rætur í sögu lands og þjóðar. Hún vakti t.a.m. þulurnar af dvala og var þar á undan Theodóru Thoroddsen. Þá skrifaði hún töluvert af sögum bæði fyrir börn og fullorðna, einkum smásögur. Skáldsaga hennar Dalafólk kom út í tveimur bindum á árunum 1936 og 1939 og þykir með hennar áhugaverðustu verkum. Um hana segir Stefán Einarsson í Íslenskri bókmenntasögu 874-1960: „Dalafólk var rituð sem svar gegn Sjálfstæðu fólki Laxness og átti að lýsa lífinu á fyrirmyndarheimilum í Þingeyjarsýslu. Vera má að sú saga sé eitthvað fegruð, en lítill vafi er á því að bókin sé forvitnileg heimild um þroskaheimili hinnar frægu þingeysku menningar.“ Við skiptum sögunni í fimm bækur. Hér í fjórðu bók er annar hluti 2. bindis, en það nefnist „Kynslóðir koma“. Hafdís E. Jónsdóttir les.