Vítt sé ég land og fagurt (2. bindi)
Hin stórbrotna og sögulega skáldsaga Guðmundar Kambans Vítt sé ég land og fagurt kom fyrst út á íslensku í tveimur bindum árin 1945 og 1946. Áður hafði hún komið út í Danmörku árið 1936 og nefndist þá Jeg ser et stort skönt land. Hlaut höfundur mikið lof fyrir söguna. Sagan er þróttmikil og sem ástarsaga á hún fáa sína líka í íslenskum bókmenntum. Fundum þeirra Björns Herjólfssonar og Þuríðar á Fróðá, systur Snorra goða, konunnar sem hann unni svo heitt að ekkert gat slitið þær tilfinningar úr brjósti hans, er lýst af mikilli leikni og innlifun. Ýmsar persónur sem hér koma við sögu, eins og Snorri goði á Helgafelli, hin stórfagra og gáfaða systir hans Þuríður á Fróðá, Leifur Eiríksson, Eiríkur rauði, Björn Herjólfsson o.fl., eru eins lifandi fyrir sjónum lesandans og þær væru nútímafólk á leiksviði. Ferðunum til Ameríku, þjóðflutningunum til Grænlands og lífi frumbyggjanna íslensku þar er lýst svo að lesandinn finnur að svona hlýtur það að hafa verið og engan veginn öðruvísi. Þeir sem unna sögulegum og dramatískum skáldsögum verða ekki fyrir vonbrigðum með þessa. Kristján Róbert Kristjánsson les.