Grænlendinga saga
Grænlendinga saga er eitt af söguritum Íslendingasagna og segir frá sama efni og Eiríks saga rauða en að ýmsu leyti á annan veg. Hún hefst á því að Bjarni Herjólfsson fer að leita föður síns sem hafði farið með Eiríki rauða til Grænlands. Þá segir frá Leifi heppna, hvernig hann hlaut viðurnefni sitt og landafundum hans. Einnig segir hér af Guðríði Þorbjarnardóttur sem talin er ein víðförlasta kona heims sem uppi var kringum árið 1000. Að því er sögur herma sigldi hún átta sinnum yfir úthöf og ferðaðist fótgangandi um þvera Evrópu. Guðríður var fædd á Íslandi en sigldi til Grænlands og þaðan til Vínlands. Hún eignaðist þar barn, Snorra Þorfinnsson, og er talið að hún sé fyrsta konan af evrópskum uppruna sem fæddi barn í Ameríku. Guðríður fór að sögn einnig til Rómar. Grænlendinga saga er líklega rituð fyrir miðja 13. öld. Hún er varðveitt í Flateyjarbók. Ingólfur B. Kristjánsson les.